KV 3 – ÍH 1

Á laugardaginn spilaði stórveldið sinn þriðja æfingaleik á árinu. Það var ekki brugðið út af vananum og vannst leikurinn 3-1 eins og hinir tveir. Sigurinn var allan tíman öruggur og voru það þeir Mummi, Sverrir og Steindór sem sáu um markaskorunina. Við vorum verðskuldað 2-0 yfir í hálfleik en síðan minnkuðu þeir munin í 2-1 áður en Steindór setti þriðja markið með skalla í næstu sókn á eftir.

[Fyrri hálfleikur]

Fyrri hálfleikur var mjög góður að okkar hálfu. Þeir áttu reyndar fyrsta færið er þeir skutu yfir af markteig á 2. mínútu. Það reyndist svo eina færi þeirra í fyrri hálfleik. Við skoruðum svo mark sem var dæmt af vegna rangstöðu. Við stjórnuðum fyrri hálfleiknum vel og áttu þeir aldrei möguleika. Mér fannst helsti munurinn á þessum leik og í leiknum á móti Gróttu hvað miðjan kom meira til baka. Hjalti sat fyrir framan vörnina og Steindór var þar fyrir framan. Þetta auðveldaði okkur í vörninni mikið leikinn enda var ekki þetta gríðarstóra bil á milli varnar og miðju í fyrri hálfleiknum. Mummi sýndi svo sína ,,sterkustu” hlið og stakk af varnamenn ÍH og renndi boltanum í netið. Gott ef það fór ekki í gegnum klofið á markmanninum. Við áttum nokkur færi og átti Sverrir að vera búinn að setja eitt mark, en hann skoraði síðan annað mark liðsins eftir góða stungusendingu frá Steindóri.

Eins og ég sagði var fyrri hálfleikurinn ágætlega spilaður af okkar hálfu, að mér fannst. Við létum boltann ganga vel á milli manna og menn spöruðu hlaup með boltann, sem er af hinu góða. En við höfum ekki efni á að fara svona illa með færin. Þetta er eitthvað sem menn þurfa bara að bæta og er nægur tími til stefnu.

[Seinni hálfleikur]

Í seinni hálfleik var eins og menn væru sprungnir. Samt var sigurinn aldrei í hættu. Þeir áttu eitt dauðafæri þegar Bassi varði glæsilega skalla frá einum ÍH manna. Svo átti sér stað smá sambandsleysi á milli mín og Hjörvars sem olli því að þeir áttu sendingu fyrir markið og einn leikmanna ÍH stakk sér á milli Nonna og Mumma Ásgeirs og skoraði. Bassi átti ekki möguleika í skotið. Við vorum samt ekki lengi að svara fyrir okkur, því strax í næstu sókn átti Ommi flotta aukaspyrnu sem sogaðist á kollinn á Steindóri sem skoraði með glæsilegum skalla. Eftir markið datt leikurinn algerlega niður og var eins og menn biðu eftir flautinu frá hinum margreynda dómara Sigurði Pétri, sem er reyndar sterklega orðaður við Stórveldið þessa dagana.

En það var margt jákvætt í þessum leik. Eins og fyrri daginn er það úthaldið sem er að bregðast okkur. Það er bara eitt að gera við því og það er að hlaupa sig í form. En annars var ég mjög sáttur við að sigra þennan leik. Lið ÍH fór í úrslitakeppnina í fyrra þ.a. við vorum að spila við sterkan andstæðing. En KV er enn þá ósigrað og það væri nú gaman að halda því áfram a.m.k. einhverja mánuði í viðbót.

[Mín skoðun]

Markmaður: Bassi var öruggur og gat ekkert gert við markinu. Það er ekki að sjá að hann sé búinn að liggja í dönskum gleðivökva undanfarna mánuði. Nú er bara að halda áfram og láta sjá sig á fleiri æfingum.

Vörnin: Mér fannst við spila ágætlega í vörninni. Mjög gott að spila með honum Mumma Á. og tapaði hann ekki skallbolta í leiknum. Núna er bara um að gera og taka félagsskipti. Það var mikið rót á bakvörðum og skiluðu þeir allir sínu. Mér fannst vörnin reyndar full opin á köflum í seinni hálfeik og var það sennilega vegna tíðra skiptinga. En mér fannst menn komast vel frá sínu.

Miðjan: Þeir spiluðu mjög vel í fyrri hálfleik og duttu vel niður fyrir framan vörnina. Mér fannst menn vera orðnir frekar þreyttir í seinni hálfleik. Mér fannst Steindór og Hjalti ná vel saman og skiptu þeir vel á milli sín hlutverkunum. Það var mikið rót á köntunum enda er ætlast til þess að menn hlaupi þar. Sennilega var enginn tilbúinn að spila fullan leik þar eins og staðan er í dag. Mummi tók einn Carl Lewis á þetta og kláraði með marki. En eins og ég sagði var mikið um skiptingar þar og því erfitt að taka menn út.

Sóknin: Maggi var virkilega duglegur í leiknum og skapaði fullt af tækifærum. Ommi var sennilega að spila þá stöðu sem hentar honum best, rétt fyrir aftan sóknina og í nokkuð frjálsu hlutverki. Sverrir kom duglegur inn og minnti frammistaða hans ekki á leik hans á móti Fame í janúar. Mér fannst sóknin heilt yfir spila vel og þá sérstaklega í fyrri hálfleik.

En það er erfitt að taka menn sérstaklega fyrir út frá þessum eina leik. Eins og gengur og gerist spiluðu með mismikið og sumir ef til vill ósáttir með sinn spilatíma. Ef svo er eiga þeir að sýna sig á vellinum og vinna sér inn aukinn spilatíma. Svo er mönnum frjálst að láta óánægju sína í ljós við mig ef þeir vilja. Við tökum því ekki illa.

Kveðja,

Palli.

E.s. Endilega segið ykkar skoðun um leikinn hér á spjallinu um hvað megi betur fara og það sem ykkur liggur á brjósti. Hvort menn séu ósáttir með eitthvað. Ekki spara yfirlýsingarnar.