KV – Hrunamenn: 4-2

Stórglæsilegur sigur hjá Stórveldinu!!!!!

Maður getur nú ekki verið annað en stoltur af þeim 9 leikmönnum sem kláruðu leikinn um leið og maður skammast sín fyrir sína eigin hegðun. En eins og alþjóð veit er Vesturbæjarstórveldið komið í aðra umferð VISA-bikarnins og mætir þar gettódrengjunum úr Breiðholtinu.

Leikurinn í kvöld byrjaði vel fyrir Stórveldið. Maggi kom okkur yfir eftir 2 mínútna leik eftir að hann afgreiddi glæsilega sendingu frá vinstri kantinum. Eftir það datt leikur okkar niður á skelfilegt plan. Menn voru á hálfu hraða og fóru vart í tæklingar. Þeir voru í sjálfu sér ekkert skárri og áttu til að mynda aðeins eitt færi í fyrri hálfleik, ef færi skyldi kallast. Einn leikmanna þeirra komst upp hægri kantinn og sendi fyrir og boltinn hafði viðkomu í þeim Hjörvari og Sigga og þaðan í netið á nærstöngina án þess að Bassi kæmi nokkrum vörnum við.

En ekki vöknuðum við, við það. Leikurinn var afar lélegur en samt sem áður fengum við fjöldan allan af færum. Maggi slapp tvisvar inn fyrir en heppnin var ekki með honum og svo átti Jói opinn skalla af markteig. Ég er pottþétt að gleyma einhverjum færum. En rétt fyrir hálfleik kom Ommi okkur í 2-1 með glæsilegu skoti með vinstri, stöngin inn. Skömmu seinna flautaðir dómarinn til hálfleiks.

Seinni hálfleikur var afar skrautlegur. Hrunamenn byrjuðu betur. Þeir prjónuðu sig strax í upphafi seinni hálfeiks í gegnum vörnina og var það stoppað með aukaspyrnu á vítateigslínunni. Úr henni skoruðu þeir svo stórglæsilegt mark sem danska kyntröllið átti ekki möguleika í.

En næstu mínútur voru skrautlegar.
Undirritaður tók afar heimskulega ákvörðun og fór aðeins of harkalega í tæklingu.
Verðskuldað rautt spjald vilja sumir meina en ég var ekki sammála því á þeirri stundu. En ætli það hafi ekki verið rétt ákvörðun. En í kjölfarið tók Ommi sig til og svaraði áhorfenda með svívirðingum og elti mig útaf vellinum. Við vitum það manna best sjálfir að við eigum ekki að haga okkur svona og þetta mun ekki líðast í framhaldinu. En það þýðir víst lítið annað en að biðjast afsökunar.
Eftir þetta var ljóst að það yrði á brattan að sækja. En það var ekki að sjá hvort liðið væri tveimur færri. Við áttum síður minna í leiknum, enda hlupu menn úr sér lifur og lungu. Liðið varðist vel og menn börðust fyrir hvorn annan. En það gerðist lítið markvert það sem eftir lifði leiks og voru menn þreyttir er dómarinn flautaði til leiksloka. Framundan voru 30 mínútur í framlengingu, 30 eftirminnilegar mínútur.
Fyrri hálfleikur framlengingarinnar var í raun sjálfstætt framhald af leiknum. Hrunamenn sköpuðu sér engin færi og áttum við eina færi hálfleiksins er Sverrir slapp inn fyrir vörnina og skaut vel framhjá með vinstri fæti.
Seinni 15 mínútunar voru frábærar. Ótrúlegt en satt þá voru þeir sprungnir en við áttum smá eftir. Þegar seinni hálfleikur framlengingarinnar var u.þ.b. hálfnaður áttu Sverrir og Maggi skemmtilegan samleik sem endaði með því að Sverrir slapp inn fyrir vörnina og lagði boltann undir markmanninn. Ég get svarið það að ég hélt að þakið myndi rifna af stúkunni en Sverrir skoraði einmitt fyrir framan Kop stúkuna. Honum þótti það ekki leiðinlegt. En þá lögði Hrunamenn allt í sölunar til að jafna, en það vildi ekki betur til en Maggi fékk boltann og stakk af þreytta varnarmenn Hrunamanna, sólaði markmanninn og lagði hann í netið. Ekki leiðinlegt. Svo fékk Maggi heiðursskiptingu enda alveg útkeyrður og í hans stað kom kyntröllið Petti Blö.

En leikurinn endaði sem sem sagt 4-2 fyri stórveldið og okkar bíður verðugur andstæðingur í næstu umferð. En áður en af þeim leik kemur eru það Víðismenn sem bíða okkar. Með sömu baráttu og þeir 9 leikmenn er kláruðu leikinn klárum við þann leik, það er ekki spurning.

Menn leiksins: Allir fyrir utan okkur Omma.
Heimska leiksins: Ég og Ommi.
Þakkir leiksins: Systir hans Mumma á þúsund þakkir skilið fyrir að taka að sér plötusnúðinn

Söknuður leiksins: Hvar var Ölmóður?
Lag leiksins: Strandavarðarlagið er of flott inngöngulag.
Klúður leiksins: Petti Blö týndi lyklunum, en hann ætlar að redda því.
Redding leiksins: Petti Blö reddaði græjunum.

Kveðja,

Palli.

KV 3 – KFS 0

Við í KV unnum enn einn sigurinn í dag þegar við sigruðum lið KFS 3-0. Svo ég leyfi KFS mönnum að segja nokkur orð þá höfðu þeir þetta um leikinn að segja:

„Leikurinn byrjaði með rothöggi því að lið KV setti tvö mörk snemma í leiknum en eftir það var jafnræði með liðunum.”

KFS voru hins vegar ófeimnir við að láta í sér heyra, og er ég viss um að við eigum einhver heimboð í Vestmannaeyjum eftir þennan leik, því þarna mynduðum við vináttubönd sem aldrei verða slitin.

En eins og þeir sögðu sjálfir þá skoruðum við tvö mörk snemma í leiknum, og áttum nokkur góð færi í fyrri hálfleik.

Maggi skoraði fyrsta markið, og svona 10-15 mínútum síðar bætti Steindór við marki og við það róaðist leikurinn nokkuð. Onni skoraði svo þriðja markið þegar um 20 mínútur voru búnar af seinni hálfleik, en KFS menn báru það fyrir sig að þeir hefðu verið hættir því að það ætti að vera komið innkast eftir að Pétur Oddbergur náði boltanum við hliðarlínuna (boltinn verður að vera allur út af strákar mínir), sem endaði svo með því að Onni skoraði enn eitt glæsimarkið fyrir KV, sem fór af hægri stönginni inn í markið ekki svo fjarri samskeytunum.

Maður leiksins: Sebastian Storgaard. Hann átti mjög góðan leik. KFS menn fengu nokkur mjög góð færi í leiknum, en Sebastian hreinlega lokaði markinu og átti alveg nokkrar heimsklassamarkvörslur í leiknum.

Stórsigur gegn Mannsa

Í kvöld sigruðum við stórlið Mannsa með miklum yfirburðu. Mannsi spilar í utandeildinni og samanstendur af kempum úr Vesturbænum. Miðað við frammistöðu þeirra í kvöld ættu þeir að halda sig við utandeildina að minnsta kosti í mili. Slappleiki þeirra kom mér mjög á óvart enda eru nokkrir þarna ágætis leikmenn.

En einhvers staðar stendur að það spilar enginn betur en andstæðingurinn leyfir. Við komumst snemma í 2-0, en þeir minnkuðu muninn 2-1 með marki úr aukaspyrnu frá honum Bimba. Ef ég man rétt var þetta eina skot þeirra á rammann í leiknum. Stefán átt samt ekki möguleika í þetta og má Bimbi eiga það að þetta var nokkuð vel gert hjá honum.

En annars opnuðust allar gáttir í vörninni hjá þeim og ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá hef ég ekki hugmynd um það hvernig þessi leikur endaði. Við skoruðum að minnsta kosti 10 mörk og þeir eitt.

Magni ákvað að flauta leikinn af þegar um 15 mínútur voru eftir enda engum greiði gerður að klára þennan leik.

Það gerðist að ég held ekkert skemmtilegt í þessum leik. Það eina sem ég man eftir var þegar Arnar Jón tæklaði Himma og var það reyndar afar fyndið.

En við verðum að ég held að spila við sterkari andstæðing næst, ætlum við okkur að taka meiri framförum. Mín skoðun er sú að við fáum ekkert út úr svona leikjum. Ég veit að það eru ekki allir sammála mér en þetta er mín skoðun.
Maður leiksins: Arnar Kormákur Friðriksson, Mannsa.

Núna þegar menn eru byrjaðir í prófum get ég skilið það að menn komist ekki á allar æfingar. Ég hvet ykkur þó til þess að koma á æfingar enda hafa allir gott af því að stíga aðeins upp frá bókunum. Menn staldra þá bara stutt við og halda svo áfram að lesa Heimi Pálsson.

En við munum reyna að spila einhverja æfingaleiki í prófunum og geta menn þá bara spilað mismikið þurfi þeir að halda áfram lestri. Það er minnsta mál að fá frí en þó er nauðsynlegt að menn mæti sem oftast, enda styttist í fyrsta leik.

Kveðja,

Palli

Fyrsta tapið – staðreynd

Það hlaut að koma að því að Stórveldið myndi tapa leik enda erum við mennskir þrátt fyrir ótvíræða hæfileika. Leikurinn í kvöld var á móti Ými eins og flestir eflaust vita.  Það var allt annað lið Ýmis sem mætti til leiks í kvöld en fyrir viku síðan. Það var mikið um forföll hjá okkar liði, en að sjálfsögðu kom bara maður í manns stað. Persónulega var ég mjög ósáttur við leik okkar í þessum leik. Þetta er lið sem við eigum að vinna og ekkert annað. Við óðum í færum en þeir fengu reyndar líka sinn skammt af færum. En ég nenni bara ekki að ræða þennan leik og vísa því mönnum bara á spjallið þar sem þeir geta rætt um hann. En hafi einhver áhuga þá vann Ýmir leikinn 2-1 eftir að Maggi hafði komið okkur yfir í fyrri hálfleik.

KV – Ýmir: 7-1

Eins og alþjóð er þegar kunnugt um hélt Vesturbæjarstórveldið áfram sigurför sinni í kvöld. Fórnarlambið var arfaslakt lið Ýmis úr Kópavogi og enduðu leikar 7-1.
Leikurinn byrjaði ekki vel við stórveldið og gaf dómari leiksins Ýmismönnum víti eftir nokkrar mínútur. Þá var eins og Ýmismenn tækju öll völd á vellinum, en það stóð stutt. Næstu mínútur eftir markið einkenndust af pirringi af okkar hálfu og átti undirritaður mikinn þátt í því. Lét ég m.a. vel valin orð falla í garð leikarans lélega í liði Ýmismanna, hefði betur getað sleppt því. En þetta er bara eitthvað sem við verðum að læra af. Ef við förum að nöldra eftir tvær mínútur í æfingaleik hvað gerist þá í sumar ef við lendum óvænt undir í einhverjum leik. En Ýmir var ekki lengi í paradís. Sverrir jafnaði leikinn skömmu síðar og var rangstöðulykt af því marki. Maggi bætti svo við marki áður en flautað var til hálfleiks.

Seinni hálfleikur var vægast furðurlegur. Undirritaður hefur ekki orðið vitni að annarri eins frammistöðu í háa herrans tíð. Liðsmenn Ýmis voru eins og hauslausar hænur nema þeir hlupu ekki. Maggi setti mark strax í upphafi og svo annað skömmu seinna. Sverrir skoraði svo annað mark sitt í leiknum áður en Maggi fullkomnaði fernuna. Stórleikur hjá Magga. En hápunktur leiksins var náttúrulega þegar ég smellti honum í hornið með hægri (þeir sem ekki vita þá er ég örfættur eða réttara sagt jafnfættur í dag).

Það er mjög erfitt að taka einhvern mann út úr liðinu. Andstæðingurinn var ekki upp á marga fiska þ.a. að ekki reyndi mikið á menn. Það sem stendur upp úr að mínu mati er það að menn hættu aldrei að reyna. Enda var niðurstaðan sú að við skoruðum sjö mörk. Þetta getur skipt máli í sumar upp á markatölu en vissulega telja mörkin í kvöld ekki.
Að undanskildum pirringnum á upphafsmínútunum þá var ég mjög sáttur með móralinn í liðinu. Menn hvetja hvorn annan og lítið er um nöldur. Eins og gengur og gerist spiluðu menn mismikið og sumir nýjar stöður. Strákar eins og Rúni og Styrmir hafa verið mikið fjarverandi undanfarið og er það enginn dómur yfir þeim að þeir hafi kannski spilað minna en aðrir. Þeir vita af hverju. Hjalti OOO var að spila nýja stöðu í bakverðinum og komst bara vel frá sínu.
Það kom ekki á óvart að Jói skyldi hlaupa út um allt. Hann er virkilega öflugur leikmaður sem styrkir okkur mikið.
Eins var Ásgeir að spila sinn fyrsta leik fyrir KV og skilaði sínu hlutverki vel.
Loksins var það ekki ég sem þurfti að dekka hann, enda veit ég það mjög vel sjálfur hversu leiðinlegt er að elta hann upp kantinn.

En ég vil nota tækifærið og minna menn á að skila inn félagskiptablöðunum sem fyrst ásamt 1.000 krónum. Ég gef þessu viku í viðbót og þá verða menn að fara sjálfir upp í KSÍ og kostar það þá 1.500 krónur.

En ég þakka fyrir leikinn,
Kveðja,
Palli

E.s. endilega segið ykkar skoðun hér á spjallinu.