Category Archives: Tilkynningar

Lýst eftir barni

Stjórn Knattspyrnufélagsins, vinir og vandamenn lýsa eftir Gunnari Kristjánssyni 25 ára dreng úr Vesturbænum. Gunnar er lágvaxinn, rétt  tæpir 170 cm á hæð (á 10 cm hælum) og tæp 60 kíló með skólatösku. Síðast sást glitta í Gunnar á heimili sínu á aðfangadagskvöld. Var hann þá klæddur í nýlega köflótta skyrtu, gallabuxur og drekaskó.
Vinir Gunnars hafa enn ekki rekist á Gunnar sem strauk frá Noregi um miðjan desembermánuð. Gunnar er ekki talinn hættulegur en þó afar viðkvæmur. Þeir sem verða varir við Gunnar eru vinsamlegast beðnir um að koma þeim skilaboðum áleiðis að það er æfing kl. 17:00 í dag.

Gamla myndin

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Gamla myndin að þessu sinni er frá árinu 2008. Myndin er úr toppbaráttuslag KV og Árborg í næstsíðustu umferð riðlakeppninnar í gömlu góðu þriðju deildinni. Ljóst var fyrir leik liðana að sigurliðið úr viðureigninni myndi fara í úrslitakeppnina. Leikar stóðu jafnir allt þar til skömmu fyrir leikslok að okkar menn fengu vítaspyrnu eftir að línuvörðurinn hafði gefið dómaranum merki um augljóst brot í vítateig gestanna. Arnar Steinn steig á punktinn og skaut okkar mönnum í úrslitakeppnina.
Þetta var í þá gömlu góðu daga þegar allir fengu að vera á bekknum eins eðlilegt og það er. Þá fengu menn jafnvel að vera með öl í brúsunum. Á myndinni má sjá margan merkilegan manninn. Athygli vekur að einungis einn núverandi leikmaður KV lék í þessum leik, þ.e. Gonni. Línuverðir voru hinir geðþekku Egill S. Ólafsson og Arnar “JoeyDrummer” Smárason.

Ógæfumenn í krumlu

Allir helstu og þekktustu ógæfumenn landsins komu saman í síðastliðinni viku og kepptu í Íslandsmótinu í krumlu. KV átti að sjálfsögðu sinn fulltrúa, barnið Auðunn Örn Gylfason. Keppt var með nýju sniði þetta árið og var markmið allra helstu keppanda að komast á svokallað lokaborð. Auðunn keppti í svokölluðum opnum og blönduðum flokki, þ.e. án allra þyngdartakmarkana, óháð aldri og kyni. Sem sagt stelpur fengu að taka þátt.

Það fór svo að Auðunn mætti afar sigurstranglegri stúlku í undanúrslitum. Auðunn mætti án sólgleraugna en rækilegar studdur af dagdrykkjumönnum átti hann mikla möguleika. Auðunn var eðli málsins samkvæmt mun yngri en mótherjinn er bjó yfir mikillri reynslu og var með langar neglur, sem getur verið mikilvægt í krumlu. Það fór svo að Auðunn varð undir í baráttunni við stúlkuna er stóð svo að endingu uppi sem sigurverari.

Fréttamaður síðunnar náði tali af Auðunni á ellefta tímanum í morgun og spurði hann út í vikuna sem leið.

,,Þetta var magnað. Það var gaman að sjá svona marga ógæfumenn komna saman á einum stað. Það var mikil ógæfa sem sveif yfir vötnum. Samt magnað að allir þarna græða, enginn sem hefur tapað neinu og allir eru í plús. Ég borga t.d. skólagjöldin mín með þessu og þarf ekkert að vinna með námi. “

Aðspurður hvernig það hafi verið að tapa fyrir stelpu í krumlu þá stóð ekki á svörum. ,,Sú stúlka, ég var bara eins og barn í lúkunum á henni. En ég er enn að taka út þroska og á eftir að stækka um fjölmarga sentimetra. Ég kem sterku til baka á næsta ári og verð þá krumlumeistarinn….ég lofa.”

Mynd: Auðunn ásamt ógæfumanni