Matarhorn Óla – Of mikið Arómat

Í matarhorni Óla Bingókúlu að þessu sinni tekur þessi þekkti lífskúnstner fyrir ofnotkun á kryddi. Gefum honum orðið.

Það er ekki fyrr en á síðustu einum til tveimur áratugum að Íslendingar hafa fengið almennilegan aðgang að góðu hráefni til eldamennsku. Því er það enn nokkuð ríkt í landanum að krydda vel, sjóða lengi og grípa til annarra húsráða til að slá á helsta ýldubragðið.

En þegar elduð er dýrindis nautalund, svo við tölum nú ekki um lambakótilettur, er mikilvægt að við höfum í huga að góð steik þarf ekki mikið krydd. Förum frekar rólega í þetta, nuddum Maldon salti og svörtum pipar varlega í steikina til að byrja með og smökkum svo áður en við bætum við. Munum svo að sósur og annað meðlæti er oft og tíðum nokkuð salt, sem dregur enn frekar úr þörfinni á að krydda steikina vel.

Auk þessa er mikilvægt að velja vínið vel. Sumt vín er svo rammsterkt að það dregur úr upptöku bragðlaukanna á söltum efnum. Því mæli ég frekar með því að þið hellið tiltölulega mildu víni í glös meðan þið gæðið ykkur á kjötinu en geymið þau sterkari til ostanna á eftir.

Og svo ég vitni nú í gamlan meistara:

Sat ég við diskinn sem ormur á gulli
svangur og klár í að borða á mig gat
en heldurðu að helvítis kellingin sulli
á steikina helvítis arómat!

Matarhornið – BB borgari

BB borgarinn er gómsætur bastarður að vestan. Listamennirnir á bak við gripinn eru þeir Björn Berg Gunnarsson framkvæmdastjóri og Brynjólfur Flosason sægreifi frá Bolungarvík.

BB borgarinn

Hráefni:
Dijon sinnep
Hunangssinnep
Majones
Beikon
Sveppir
Rauð paprika
Kál
Tómatur
Cheddar ostur
Sterkur Gouda ostur
Jalapeno
200 gr. borgari
Stórt hamborgarabrauð

Smyrjið Dijon sinnepinu á neðra brauðið og breiðið kál og tómat þar varlega yfir. Leggið þar næst miðlungssteikt buffið með bræddum ostunum ofan á og steikta blöndu papriku, sveppa og beikons. Frussið majonesi yfir dýrðina og troðið jalapeno ofan á. Smyrjið hunangssinnepi á efra brauðið og lokið svo borgaranum vandlega. Ekki gleyma að hafa hitað brauðið í ofni.

Skolist niður með skítkaldri kók.