Category Archives: Matarhornið

Sáttir við við veitingarnar

Þeir Björn Jakob Magnússon (bróðir Kidda Magg) og Ingvar Örn Ákason voru afar sáttir með veitingarnar sem í boði voru eftir leik KV og Njarðvíkur í síðustu umferð.

Guðmundsdætur hafa boðið upp á dýrindis krásir í lok heimaleikja liðsins og kann stjórn þeim innilegustu þakkir fyrir, enda fátt betra en að gæða sér á eins og hálfri vínarbrauðslengju eftir erfiðan leik.

Björn hafði á orði að honum þætti „ofsalega gott að fá svona kruðerí á kvöldin“ en tók þó fram að „það hefði verið gaman að sjá eitthvað spelt fyrir kvenfólkið“.

Það var létt yfir Ingvari þegar við gómuðum hann með hálfa berlínarbollu í skoltinum og flórsykur langt út á kynn. „Jú bíddu, gamli fæðuhringurinn!“ sagði hann og hló. „Nei ég tek húfuna ofan fyrir stelpunum, þær eru tenmmilega eigulegar ef þær kunna að baka svona, Dóri ekkert svo á bullandi bólakafi í lukkupottinum hehe“.

En hvaða einkunn skyldu strákarnir ætla að gefa veitingum kvöldsins? „Þetta er nía!“ sagði Björn ákveðinn „betra en í max-stofunni en ég hefði viljað sjá fleiri snúða, þeir kláruðust of snemma“.

Bingókaka Óla Bingó

Óli lætur ekki deigið síga í eldhúsinu heldur snarar fram hverju hnossgætinu á fætur öðru.

Hann hefur verið upptekinn við eldavélina og nú síðast varð úr dýrindis Bingókaka, terta með kremi og extra bingókúlum sem Davíð Birgisson, vinur Óla, segir að sé „klikkað góð“.

Þrír glaðlegir piltar príða kökuna, þeir Gísli, Eiríkur og Helgi.

Opið hús verður hjá Óla í dag þar sem hann gefur smakk og sérrídropa.

Bailey’s kökur Óla

Ólafur B. Sigurðsson, leikmaður KV, er mikið jólabarn og segist baka mikið fyrir jólin. Fréttamaður síðunnar rann á lyktina í gærkvöldi á gönguferð sinni um Vesturbæinn og var að sjálfsögðu boðið inn.

„Þetta eru Bailey’s kökur!“ sagði Ólafur kampakátur en hann segist hafa það sem reglu að skilja alltaf eftir kökur á eldhúsborðinu fyrir Stekkjastaur til að fagna komu fyrsta jólasveinsins til byggða. „En ég lýg því ekki að ég fæ mér nokkrar“ bætti hann svo við sposkur á svip.

Við báðum Óla um að deila með okkur uppskriftinni:

Hráefni: 

1/4 bolli af Bailey’s Irish Cream
1 Matskeið smjör
350 gr. súkkulaði
2 eggjarauður
1/4 bolli rjómi

Bræðið súkkulaðið, Bailey’sið og rjómann saman við lágan hita. Hrærið loks rauðurnar, eina í einu, út í. Þegar þetta er orðið vel blandað bætið þið smjörinu út í og hrærið duglega.

Hendið þessu í ísskápinn yfir nótt þar til þetta verður hart og gott. Notið þá skeið til að gera litlar kúlur úr deginu, rúllið þeim upp úr flórsykri, kakói, söxuðum hnetum eða annars konar skrauti eftir óskum.

Betra en kynlíf.

Bernaise sósa stjórnar

Í matarhorninu að þessu sinni eru það formaður og framkvæmdastjóri sem fara yfir það hvernig almennileg bernaise sósa er útbúin.

Hráefni:
6 eggjarauður
500 gr smjör
3-4 msk hvítvíns edik
1 msk etragon
Svartur pipar
Karrý á hnífsoddi
Paprikuduft á hnífsoddi
½ msk Dijon sinnep
Kjötkraftur ef með þarf

Látið smjörið bráðna í rólegheitum við vægan hita. Passið að hræra ekki í smjörinu því að ætlunin er að fleyta fituna ofan af grogginu/mjólkinni sem myndast í botninum, seinna meir. Eggjarauðurnar eru þeyttar vel saman ásamt ediki og kryddi, yfir heitu vatnsbaði. Varist að láta eggjarauðurnar hitna um of. Hræran verður að vera ljós og létt. Takið af vatnsbaðinu og hrærið stöðugt í á meðan smjörinu er hellt saman við, smátt og smátt. Það gæti þurft að setja matskeið og matskeið af volgu vatni ef hræran verður of þykk. Kryddið til ef með þarf.

Heslihnetukökur Óla

Í matarhorni Óla að þessu sinni er ein hans þekktasta uppskrift: heslihnetukökur. Þurkið munnvikin, þessi er svakaleg.

Hráefni:
1 poki Betty Crocker hnetusmjörs kökumix
3 matskeiðar bráðið smjör
1 egg
5 matskeiðar mjólk
1 bolli heslihnetusúkkulaðismjör
1 bolli flórsykur
Hálfur bolli saxaðar salthnetur

Hitið ofninn í 180 gráður. Blandið saman í skál kökumixinu, bráðna smjörinu, egginu og einni matskeið af mjólk. Látið þetta svo bíða.

Í minni skál blandið þið svo vandlega saman heslihnetusmjörinu og flórsykrinum. Rúllið helming svo saman í 5 litlar kúlur, fínt að nota matskeið.

Nú takið þið kökudeigið sem þið gerðuð fyrst og gerið litlar flatar klessur. Gerið dæld í miðjar kökurnar. Setjið litlu kúlurnar inn í dældina og lokið fyrir með kökudeiginu (kúlurnar eiga að vera inni í deiginu). Skellið þessu á smjörpappír og inn í ofn með þetta í ca. 11-13 mínútur eða þar til þið sjáið að kökurnar eru orðnar fallega brúnar.

Nú hrærið þið restinni af heslihnetusmjörmixinu saman við fjórar matskeiðar af mjólk þar og hellið yfir kökurnar. Troðið svo söxuðu salthnetunum ofan á. Gefið þessu svo smá tíma til að harðna.

Væsgú!