Category Archives: Liðsfréttir

Frábæru tímabili lauk með sæti í 1. deild

Vesturbæingar kvörtuðu ekki yfir sumrinu þó veðrið hafi ekki verið upp á sitt besta, enda náðu knattspyrnuliðin tvö frábærum árangri. KR-ingar urðu Íslandsmeistarar og litla liðið sem fagnar 10 ára afmæli á næsta ári, KV, tryggði sér í fyrsta sinn þátttökurétt í 1. deild.

Litlar breytingar urðu á liðinu fyrir tímabilið og var byggt á frábærum árangri síðasta árs. Þeir Daníel Kristinsson og Aron Steinþórsson lögðu skóna á hilluna og Ingvar Rafn Stefánsson og Jökull Elísabetarson sóttu á önnur mið en í staðinn fékk liðið afar góðan liðsstyrk. Þeir Magnús Bernhard Gíslason og Steindór Oddur Ellertsson snéru aftur í Vesturbæinn við mikinn fögnuð stuðningsmanna og loks kom Sölvi Davíðsson aftur heim. Hinn reyndi Sigurvin Ólafsson kom frá Fylki og þeir Eyjólfur Fannar Eyjólfsson (nýliði ársins), Jóhann Páll Ástvaldsson, Bjarki Hreinn Viðarsson og Vilhjálmur Darri Einarsson gengu til liðs við félagið um veturinn.

Deildarbikar
Eftir góðan árangur í B deild Lengjubikarsins náði KV silfri þegar liðið lá 0-1 gegn HK í úrslitaleik. Liðin settu þar með tóninn fyrir sumarið og ljóst að þau yrðu gríðarlega sterk.

Bikarkeppnin
Það vantaði ekki dramatíkina í Borgunarbikarævintýri KV þetta sumarið. Vesturbæingar mætti liðunum tveimur sem síðar tryggðu sér sæti í Pepsi deild og stóð sig með ólíkindum vel. Liðið vann Fjölnismenn með frábærri frammistöðu í Vesturbænum þar sem Davíð Steinn Sigurðsson skoraði sigurmarkið rétt fyrir leikslok. Í næstu umferð mætti liðið Víkingum á heimavelli og var mikið jafnræði með liðunum en hvorugu tókst að skora og þurftu Víkingar vítaspyrnukeppni til að komast áfram.

2. deild
KV var við topp 2. deildar allt sumarið. Deildin var afar sterk og engin gefin stig, en liðið lenti ef eitthvað er í meiri erfiðleikum með liðin í neðri hluta deildarinnar en þau á toppnum. Með sigri í hörkuleik gegn nágrönnunum á Seltjarnarnesi hélt KV toppsætinu þegar fyrri umferð var lokið og þrátt fyrir nokkur áföll var liðið alltaf í góðri stöðu nálægt toppnum. Frábær 3-2 útisigur á mjög sterku liði Aftureldingar þegar talsvert var liðið á mótið hélt liðinu í góðri stöðu og þegar þrír leikir voru eftir var ljóst að tveir sigrar nægðu til að tryggja sögulegan árangur og sæti í 1. deild. Með ólíkindum hlýtur að teljast að liðið hafi ekki lagt Dalvík í leik þar sem yfirburðirnir voru sennilega þeir mestu í allt sumar. Gríðarlega mikilvægur sigur vannst þó á Hornafirði þar sem Sigurvin Ólafsson fór mikinn og því ljóst að leikur KV og Gróttu í lokaumferðinni yrði úrslitaleikur um hvort liðið færi upp. Fyrir alla íbúa vestan Priksins var þetta draumaleikur. Í frábæru veðri laugardaginn 21. september troðfylltu yfir 1.000 áhorfendur KV Park og sáu liðið fagna þeim ótrúlega árangri að lang minnsta lið 2. deildar og það eina sem engin laun borgar tryggði sér sæti í 1. deild.

Stoltir Vesturbæingar
KV braut sumarið 2013 blað í knattspyrnusögunni. Að svo lítið lið á mælikvarða viðkomandi deildarkeppni hafi tryggt sér sæti í næst efstu deild er eitt og sér stórfrétt, en að slíkur árangur hafi náðst án þess að nokkur maður fái greitt gerir árangur KV sögulegan og sennilega einstakan. Íslensk knattspyrna hefur breyst til hins betra með afreki KV og hefur sannast að hugmyndafræðin að baki liðinu getur staðist þeim bestu snúning innan vallar og skapað mestu mögulegu skemmtun fyrir stolta félagsmenn utan hans.

KV ævintýrið heldur áfram í 1. deild 2014.

Skipti um buxur

Stefán Hirst Friðriksson, markvörður KV, var sendur heim af æfingu um daginn. Ástæðan var sú að hann mætti í gallabuxum á æfingu og þótti Páli Kristjánssyni þjálfara hann sýna liðinu óvirðingu, enda gallabuxur ekki viðurkenndur klæðnaður á æfingum KV.

Stefán tók gagnrýninni með jafnaðargeði, fór heim og skipti um buxur. Hann hélt þó duglega tölu um ágæti gallabuxna þegar hann snéri aftur.

Tiki-taka strákurinn – Þjóðhátíðarviðtal við Davíð Birgisson

Honum er drullusama hverjir skora, svo lengi sem hann getur bókfært þrjá punkta. Alltaf fyrstur á æfingu og síðastur heim. Eftirsóttasti piparsveinninn í Vesturbænum. Galdramaður á velli og hvers manns hugljúfi. Tiki-taka strákurinn Davíð Birgisson.

“Það er eins og eitthvað gerist þegar ég fæ bolta í lappirnar.” segir Davíð í samtali við helgarútgáfuna. “Öll læti og allt áreiti í kringum mig hverfur, mér líður eins og ég sé kominn heim. Það er eitthvað friðsælt við það að hafa svona fullkomna stjórn. Fyrir mér er fótbolti ekki áhugamál heldur nauðsynlegur. Ég anda að mér fótbolta og ef ég kemst ekki á æfingu finnst mér eins og ég kafni.”.

Davíð hefur verið áberandi í frægðarför KV upp metorðastiga íslenskrar knattspyrnu undanfarin misseri. Hann er eftirlæti áhorfenda á KV Park en lætur sér fátt finnast um allt fjaðrafokið. “Þetta er hópíþrótt og einn leikmaður breytir engu. Ég reyni að hjálpa liðinu mínu eins og hægt er og ef ég næ að setja upp mark, hreinsa á línu eða skora þá hjálpar það auðvitað en ég fagna alveg jafn mikið ef einhver annar gerir það.” segir Davíð.

En hvað ætlar Davíð að gera í tilefni þjóðhátíðardagsins? “Ja ætli ég fari ekki á æfingu kl. 17:30 og detti svo á bólakaf í eitthvað ógeðslegt fyllerí. Ég á enn strætómiða frá því um síðustu helgi þannig að hver veit nema maður verði líka lökkí”.

Missti vitið og brotnaði niður

„Ég er mjög ósáttur við það hvernig þeir stóðu að þessu máli. Mér finnst ég ekki eiga þetta skilið eftir að hafa staðið mig vel í deildinni í fyrra og næstum því komið liðinu upp um deild þegar ég kom inn á á Húsavík og var næstum því búinn að skora,“ segir framherjinn Valdemar Ásbjörnson sem er án félags en hann rifti samningi sínum við KV fyrir helgi. Continue reading Missti vitið og brotnaði niður