Jafntefli við Njarðvík

KV og Njarðvík gerðu jafntefli á KV Park á föstudagskvöld. Aðstæður gerðu liðunum erfitt fyrir að spila almennilegan fótbolta og var leikurinn því lítið fyrir augað. Vesturbæingar hófu leikinn afar vel en eftir um 20 mínútur skoruðu Suðurnesjamenn eftir mjög ódýra aukaspyrnu, úr sínu eina skoti í hálfleiknum. Gestirnir vörðust vel eftir markið, með alla sína leikmenn í vörn og þó nokkrum sinnum stæði það tæpt náðu þeir að halda markinu hreinu þar til Gunnar Kristjánsson skoraði í uppbótartíma.

Með stiginu heldur KV toppsæti deildarinnar en næsti leikur er á þriðjudaginn kemur á Ólafsfirði.

Þeir Jón Kári Eldon og Halldór Bogason léku sinn síðasta leik fyrir KV í sumar, en þeir halda nú vestur um haf í háskóla. Halldór fer til Alabama og Kári til San Francisco. Gunnar Kristjánsson er auk þess floginn til Þrándheims í mastersnám í jarðfræði en mun fljúga heim í helming eftirstandandi leikja liðsins.

Stórglæsilegur sigur á HK á Kópavogsvelli

Áhorfendur fengu heilmikið fyrir þúsundkallinn sinn á Kópavogsvelli í gærkvöldi þegar Vesturbæingar mættu HK. Báðum liðum hefur gengið vel í sumar og var til mikils að vinna, enda bæði í bullandi toppbaráttu. Aðstæður gætu ekki hafa verið betri, völlurinn rennisléttur og grænn, logn, sól og öll aðstaða á Kópavogsvelli eins og best verður á kosið.

Í stuttu máli sigraði KV með fjórum mörkum gegn einu eftir fyrirmyndar frammistöðu. Mörk KV skoruðu þeir Gunnar Kristjánsson, Davíð Birgisson og Einar Már Þórisson. Fjórða markið var sjálfsmark.

Umfjallanir um leikinn:
Vefsíða HK
Fótbolti.net

Það er litlu við þessar góðu umfjallanir að bæta en leikmenn og aðstandendur KV vilja koma þökkum til þeirra fjölmörgu stuðningsmanna liðsins sem lögðu leið sína í Kópavoginn. Stemningin var með besta móti og kemur svo öflugur stuðningur til með að reynast dýrmætur í toppbaráttunni það sem eftir lifir sumars.

Mikilvægur sigur í döprum leik

Vesturbæingar nældu sér í þrjú geysilega mikilvæg stig í 2. deildinni á laugardaginn þegar liðið sigraði Fjarðabyggð 1-0. Með sigrinum náði liðið tveggja stiga forskoti á toppi deildarinnar „sem er nú okkar að tapa“ eins og miðjumaðurinn öflugi Jón Kári Eldon orðaði það svo skemmtilega.

Einar Bjarni Ómarsson skoraði gott skallamark sem dæmt var af vegna rangstöðu og lagði svo upp eina mark leiksins á Gunnar Kristjánsson sem hamraði boltann í netið eftir stungusendingu.

Næsti leikur liðsins er á miðvikudagskvöld kl. 20:00 þegar liðið mætir HK á Kópavogsvelli.

KV 2-1 Grótta

KV sigraði Gróttu í hörkuleik í gærkvöldi. Halldór Bogason og Aron Steinþórsson skoruðu mörk KV en mark Gróttu skoraði gamli KV maðurinn Magnús Bernhard Gíslason.

Með sigrinum kom KV sér í 2. sæti deildarinnar nú þegar deildin er hálfnuð.

Næsti leikur KV er á Hvolsvelli á föstudaginn kl. 20:00 og eru stuðningsmenn liðsins hvattir til að renna austur og styðja sína menn.

Nánari umfjöllun um leik gærkvöldsins er að finna á fótbolta.net.