Category Archives: Leikskýrslur

KV 4-2 Ægir (Æfingaleikur)

KV lagði Ægi frá Þorlákshöfn í æfingaleik á KV Park í gærkvöldi. KV komst í 4-0 en gestirnir minnkuðu muninn á síðustu mínútum leiksins. Mörk KV skoruðu þeir Brynjar Orri Bjarnason (2), Magnús Helgason og Gunnar Kristjánsson. Tómas Kjartansson og Matthías Bjarnason skoruðu mörk gestanna.

Hér má sjá myndbrot úr leiknum.

Tap fyrir norðan – næsti leikur á fimmtudag

Ekki minnkar spennan á toppi 2. deildar en eftir tap á Húsavík er KV í 2. sæti deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir.

Úrhellisrigning var rétt fyrir leik og með köflum á ágætum vellinum á Húsavík og þó menn ættu nokkuð erfitt með að fóta sig á vellinum var fyrri hálfleikur þokkalegur þó lítið væri um færi. Strax í upphafi leiks átti Gunnar Kristjánsson að fá vítaspyrnu þegar hann bjó sig undir að fylgja eftir skoti rétt við vítapunktinn en var keyrður niður. Augljóst brot sem dómarinn hefur væntanlega ekki séð.

Síðari hálfleikur var talsvert slakari hjá Vesturbæingum og gekk sóknarleikurinn illa. Atli Jónasson varði tvisvar mjög vel frá heimamönnum og Guðmundur Pétur Sigurðsson náði að bjarga vel þegar sóknarmaður Völsungs var við það að ná skoti einn á móti Atla.

Skömmu fyrir lok venjulegs leiktíma komust heimamenn yfir með góðu marki eftir að Jökull Elísabetarson hafði orðið fyrir föstu olnbogaskoti í andlitið sem ekki var dæmt á. Eftir markið efldust Vesturbæingar, gerðu allt hvað þeir gátu til að jafna og áttu að fá tækifæri til þess þegar varnarmaður handlék boltann inni í vítateig en enn og aftur var ekki flautað. Heimamenn gerðu út um leikinn nokkrum andartökum fyrir leiksloks og eru nú á toppi deildarinnar.

Næsti leikur KV er gegn Aftureldingu á fimmtudag kl. 18:30.

Sigur á Hamri í spennandi leik

KV og Hamar mættust á aðalvelli KR í gærkvöldi, en leikurinn var afar mikilvægur fyrir bæði lið. KV gat komist í toppsætið með sigri og Hamar var undir pressu í botnbaráttunni frá Fjarðabyggð sem lagði Njarðvík fyrr um daginn.

Nokkuð jafnræði var með liðunum þar sem miðjumenn liðanna voru mest áberandi, en þeir Jökull Elísabetarson (KV) og Abdoulaye Ndiaye (Hamri) áttu báðir frábæran leik. Varnir beggja liða héldu nokkuð vel og fengu liðin í mesta lagi hálffæri framan að.

Einar Bjarni Ómarsson kom Vesturbæingum yfir eftir ríflega klukkustundarleik með góðu skoti í fyrstu snertingu úr teignum. Aron Steinþórsson var fljótur að bæta við öðru marki en langt skot hans með vinstri fæti hafði viðkomu í varnarmanni og slöngvaðist yfir Björn Metúsalem í marki Hamars.

Minnstu munaði að Einar Már Þórisson kæmi KV í 3-0 eftir glæsilega tilburði upp vinstri kantinn. Hann tók skrefið til hægri og lét vaða af vítateigshorninu en boltinn hafnaði efst í innanverðri fjærstönginni.

Hamarsmenn minnkuðu metin þegar lítið var eftir, en þá fylgdi Sene Abdalha eftir frábærri markvörslu Atla Jónassonar í marki KV. Ekki voru þó skoruð fleiri mörk og fögnuðu Vesturbæingar þremur afar dýrmætum stigum í toppbaráttunni.

Næsti leikur KV verður á Húsavík næstkomandi laugardag kl. 14:00.

Grátlegt tap í erfiðri ferð til Ólafsfjarðar

Annað hvort þarf að skrifa bók eða örstutt greinarkorn um 3-1 tap KV á Ólafsfirði í gær. Við látum það síðarnefnda duga að þessu sinni.

Eftir rúmlega 8 klukkustundir í rútu sem fengin var að láni frá Bangladesh mættu Vesturbæingar hálftíma fyrir leik í gríðarlega mikilvægan leikinn gegn KF. Ekki fékkst leiknum frestað um einhverjar mínútur svo menn gætu gert sig klára, en eftir svo langa setu og reglulegar áhyggjur af eigin lífi í rútuferðinni frá helvíti stóðu strákarnir sig afar vel með því að jafna metin og ná því sem næst að knýja út jafntefli. En á lokamínútunum skoruðu heimamenn mörkin sem skildu á milli liðanna og sendu KV menn stigalausa heim.

Leikmenn fá áfallahjálp á æfingu í dag sem hefst kl. 18:00 og unnið verður í því að gera menn andlega klára fyrir næsta leik, sem er heimaleikur gegn Hamri á sunnudaginn.