Gamla fréttin – FH-KV í handbolta

Árið 2006 mættust KV og FH í Kaplakrika í fyrstu umferð SS bikarsins í handknattleik. Leikurinn var hin besta skemmtun og fjölmargir áhorfendur mættir til að styðja sína menn.

Leið KV var þannig skipað: Egill Stóri Sigurðsson, Sigþór Siðlausi, Sveinbjörn Þorsteinsson, Viðar Reynisson, Jóhann Eiríksson, Björgvin Vilhjálmsson, Hjalti Jónsson, Sölvi Sturluson, Ólafur Johnson, Atli Jónasson, Sölvi Davíðsson, Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, Tómas Agnarsson og Sigurður Pederson Magnússon.

Grein fckv.com um leikinn:

Vesturbæingar voru óheppnir að detta út í 32 liða úrslitum SS bikarkeppninnar gegn 15 földum Íslandsmeisturum FH í kvöld. Þarmeð er bikarævintýrið á enda, en við getum þó borið höfuðið hátt því eflaust þarf að spúla Krikann vandlega vegna líkamsvessa KV manna sem flæddu um gólf í öllum átökunum.

Menn voru vel stemmdir í leiknum og þó nokkra fastagesti hafi vantað í stúkuna var fín mæting og nokkur hávaði. Við náðum að hanga í heimamönnum fyrstu mínúturnar og greinilegt var að menn voru ekki mættir út í úthverfin til að tapa. Hins vegar tóku FH-ingar þetta á úthaldinu og sigldu smám saman fram úr.

Allt í allt var um fyrirtaksskemmtun að ræða fyrir alla hlutaðeigandi og það er á kristaltæru að nýtt handboltastórveldi er að rísa í vestri. Við þökkum öllum þeim dyggu stuðningsmönnum sem lögðu land undir fót til að styðja strákana og þökkum sömuleiðis FH-ingum fyrir fyrirmyndar umgjörð og góðan leik.

Topp 5 verstu meiðsli KV

Nú bregðum við okkur niður minningarstíg og rifjum upp nokkur móment úr sögu KV. Að þessu sinni eru það meiðslin sem leikmenn hafa orðið fyrir í gegnum tíðina.

5. Stefán Hirst Friðriksson – Snúinn ökli
Markvörðurinn og prikið Stefán Hirst missti nokkra leiki úr tímabili þar sem hann missteig sig að hætti KV manna í brekkunni á Þjóðhátíð í Eyjum. Þetta voru þó ekki einu meiðsli kappans. Hann fékk eitt sinn klaufalegt mark á sig á æfingu og kýldi stöngina með þeim afleiðingum að hann brákaðist og var fjarri góðu gamni um tíð, en gat þó spilað FIFA.

4. Hannes Bjartmar Jónsson – Sprunginn sekkur
Fallbyssan Jökull Elísabetarson, leikstjórnandi Íslandsmeistara Breiðabliks, hefur verið tíður leynigestur á æfingum KV í gegnum árin. Það er þó ljóst að Hannes nokkur Hvergerðingur mun vilja forðast að mæta honum á vellinum eftir viðskipti þeirra síðasta haust. Þá lét Jökull bylmingsskot vaða af um 2 metra færi beint í miðstöðina á Hannesi með þeim afleiðingum að hann var frá keppni og æfingum í á annan mánuð og þurfti að leita sér læknisaðstoðar.

3. Ómar Ingi Ákason – 2 vikur
GG og KV mættust í hörkuleik á aðalvelli Grindavíkur fyrir nokkrum árum. Herforinginn á miðju KV á þeim tíma var Ómar Ingi Ákason. Hann varð fyrir smá hnjaski í leiknum og var frá í 2 vikur. Um 3 árum síðar er hann enn í strangri endurhæfingu. Ómar afrekaði það svo einnig að vera það svekktur á að vera meidur á hægri að hann sparkaði í ruslatunnu með vinstri og meiddi þá löpp einnig.

2. Jóhann Gunnar Þórarinsson – Slitin hásin
Jóhann hefur átt við ýmiss meiðsli í gegnum tíðina en verst voru þó “ég hljóp svo hratt að ég hrasaði og datt” meiðslin hans frægu í Akraneshöllinni um árið. Þá sleit kappinn hásin með þeim afleiðingum að ekki hefur slitnað slefið milli þeirra Carlosar síðan, en hinn síðarnefndi var víst sá eini á svæðinu sem trúði því að um raunveruleg meiðsli væri að ræða og er skv. orðum Jóhanns “miklu meiri maður en þið allir til samans!”.

1. Páll Kristjánsson – Kjálkabrot
Engin meiðslasaga úr Vesturbænum er klár fyrr en minnst hefur verið á líkamsárás Vilhjálms Vilhjálmssonar lögfræðings á Pál Kristjánsson hdl í Vesturbænum seint á fyrsta áratug aldarinnar. KV mætti þá Pungmennafélaginu Gullu í æfingaleik á KV Park. Páll fór í tæklingu af gamla skólanum og hafnaði Vilhjálmur með hnéð í smetti Páls með þeim afleiðingum að kjálkinn klofnaði og Páll missti nokkrar tennur. Hringt var á sjúkrabíl með Pál vælandi eins og litla stelpu. Strákurinn var skrúfaður og víraður saman og var ekki lengi að jafna sig. Í fyrsta leik sínum eftir meiðslin, gegn Hamri í Hveragerði, fékk Páll svo annað hökk í andlitið.

Gamla fréttin – KV maður verðlaunaður af KR

Þann 3. nóvember 2006 rataði þessi frétt inn á fckv.com.

Það eru gömul tíðindi að KV hirði stærstu molana úr 2. flokki KR. Enn eitt dæmið um það er að Jóhann Rauðmann, nýr leikmaður stórveldisins, fékk verðlaun fyrir mestu framfarir ársins á lokahófi 2. flokks KR um daginn. Við óskum Jóhanni að sjálfsögðu til hamingju með titilinn og búumst ekki við minni framförum af honum nú þegar hann er kominn í meistaraflokk.

Munið þið eftir þessu? Jón og Ofbeldismaðurinn

KV-maðurinn Nonni Ólsari fékk um daginn, eins og alþjóð veit, að smakka á rjóma íslenskra undirheima þar sem hann var á KV-æfingu á Prikinu. Að því tilefni er því ekki úr vegi að rifja upp eina klassíska frétt sem birtist hér á fckv.com þann 29. október 2005, eftir að Jóni og Ofbeldismanninum hafið lent saman á æfingu.

Jón og Ofbeldismaðurinn

Undanfarnar æfingar hefur borið nokkuð á vaxandi spennu milli tveggja leikmanna KV. Jón Bjarni og Ofbeldismaðurinn hafa áður átt í frekar hóflegu ástar/haturs sambandi en fyrir nokkru síðan tók botninn úr. Ofbeldismaðurinn, sem hafði farið svona líka hressilega vitlaust frammúr, gjörsamlega slátraði Jóni í einni ofsalegustu tæklingu sem sést hefur í Vesturbænum og þar búa þó Sigurður Peðerson Magg og Páll Kristjásson.

Jón er nú allur að koma til og mætti á æfingu í dag. Ofbeldismaðurinn lét þó ekki sjá sig og er það miður þar sem völlurinn var einkar slæmur og vel til þess fundinn að soðið gæti upp úr. Páll, bróðir Jóns, lét Ali þó rækilega finna til tevatnsins, enda er sá síðarnefndi enn skráður í Gróttu.