All posts by Stjórnin

Páll Bjarni yngstur til að leika með KV

ðpalli2Páll Bjarni Bogason, 11 ára, varð á föstudag yngstur leikmanna KV.

Kappinn kom inn á sem varamaður fyrir Vilhjálm Darra Einarsson á 86. mínútu æfingaleiks KV og 2. flokks KR og var óheppinn að skora ekki.

Páll er jafnframt deildarstjóri boltamála hjá KV en hann sýndi góða takta í leiknum og er ein bjartasta von liðsins í dag. “Hann er lúnkinn, sé smá mig í í honum” sagði Davíð Birgisson, stjörnuleikmaður Vesturbæinga eftir leikinn og brosti.

palli

Dekraði við Conan á konudaginn

Snorri Páll Sigurðsson, hjartaknúsarinn í liði KV, dekraði við betri helminginn á konudaginn.

“Við skelltum okkur á Hótel Voga”, sagði Snorri þegar við náðum tali af honum á ellefta tímanum í morgun, en hann var þá í frímínútum, á leið í tíma í verklegri þjóðhagfræði.

“Við ætluðum sko í Lónið, eða það var ég búinn að segja henni. Henni finnst alltaf alveg wicked sexy þegar ég er svona spontant týpan skilurðu þannig að ég tók afleggjarann inn að Vogum í staðinn fyrir Lónið og hún bara eitt risastórt spurningamerki hahahaha”.

Og var kvöldið rómantískt Snorri? “hehe, jújú, maður svosem reif eins og eina blóðrauða rós upp úr vasanum þegar maður mætti og svo hélt ég á henni inn um dyrnar. En ég er ansi hræddur um að það þurfi að kalla á geislavarnir ríkisins til að taka til í herberginu eftir nóttina ef þú skilur hvað ég meina, hehehe” sagði Snorri að lokum glottandi, stakk upp í sig snúð og hljóp í tíma.

Völsungar að stela stjörnubakverði KV?

“Svona eru þessi lið úti á landi…” sagði Gunnar Kristjánsson, stjórnarmaður í KV, þegar við náðum tali af honum á ellefta tímanum í morgun en hann var þá “á bólakafi í Skagaskæpi” eins og hann kallaði það.

Sú saga flýgur nú fjöllunum hærra um Vesturbæinn að Gonnráð Sigurðsson, stjörnubakvörður KV, sé undir smásjánni hjá 1. deildarliði Völsungs og þeir viti akkúrat hvernig skuli klófesta drenginn.

Frekari upplýsingar má lesa hér.

KV 4-2 Ægir (Æfingaleikur)

KV lagði Ægi frá Þorlákshöfn í æfingaleik á KV Park í gærkvöldi. KV komst í 4-0 en gestirnir minnkuðu muninn á síðustu mínútum leiksins. Mörk KV skoruðu þeir Brynjar Orri Bjarnason (2), Magnús Helgason og Gunnar Kristjánsson. Tómas Kjartansson og Matthías Bjarnason skoruðu mörk gestanna.

Hér má sjá myndbrot úr leiknum.

Kolefnisjafnar sig

„Það væri nær að kolefnisjafna á þér rassgatið!“ sagði Valdemar Ásbjörnsson, leikmaður KV, þegar við rákumst á hann í Ísgerðinni á ellefta tímanum í kvöld. Valdemar var þar með konunni (eða Conan eins og hann kallar hana) að fá sér einn tvöfaldan ís með dýfu. Það var greinilega hvasst á Gólsenstöðum og stuttur þráðurinn, en fréttamaður spurði pent út í myndir sem birst hafa af Valdemar á netinu gróðursetjandi tré, en talað er um að hann sé þar að kolefnisjafna sig. Ku þetta vera áramótaheit.

Eftir fyrsta sleikinn af ísnum bráðnaði þó af Valda kalda mesta bræðin og hann settist niður, krosslagði fætur, hallaði sér aftur í stólnum og sagði allt af létta.

„Sko maður getur ekki mengað og mengað eins og enginn sé morgundagurinn. Kannski eignumst við einhvern tíman börn [tekur í hönd konunnar] og maður verður sko að hugsa út í þann heim sem við skiljum eftir handa þeim, fjandakornið.“ segir Valdemar ákveðinn og lemur í borðið til að leggja enn frekar áherslu á orð sín.

En hvað þarf Valde að gróðursetja mörg tré til að kolefnisjafna sig? „Það fer eftir því hvort við förum norður“ segir Valdi einbeittur og bætir við „… en ég reikna með að ég þurfi að grafa svona 10 pund af rabarbara á Valhúsahæð til að koma þessu í gang og svo finnst mér tilfinnanlega vanta aspir við Flyðrugranda.“

En þá stóð Valdemar upp, hrifsaði frúna með og arkaði út hrópandi „Jæja, má ekki vera að þessu, þetta setur ekki í sig sjálft!… nei, þetta setur sig ekki í jörðina sjálf! Æ þú veist hvað ég meina. Sleiter!“