Missti vitið og brotnaði niður

„Ég er mjög ósáttur við það hvernig þeir stóðu að þessu máli. Mér finnst ég ekki eiga þetta skilið eftir að hafa staðið mig vel í deildinni í fyrra og næstum því komið liðinu upp um deild þegar ég kom inn á á Húsavík og var næstum því búinn að skora,“ segir framherjinn Valdemar Ásbjörnson sem er án félags en hann rifti samningi sínum við KV fyrir helgi.

Hann ákvað að gera það er stjórn knattspyrnudeildar tilkynnti honum að félagið væri búið að semja við Magnús Bernhard Gíslason sem hefur verið einn besti framherji íslenska boltans síðustu ár. Valdemar skrifaði undir svokallaðan einn plús einn samning við KV í fyrra en nefndi í leiðinni að hann hefði áhuga á því að komast jafnvel út eftir tvö til þrjú ár.

„Palli, Bjössi og Dóri sögðu að það væri frábært. Ég gæti verið hjá þeim sem framherji og svo myndu þeir aldrei standa í vegi fyrir því ef ég vildi komast út,“ segir Valdi.

Strax í fyrrahaust fór af stað orðrómur um að Magnús væri á leið í KV. Valda var þá tjáð að ekkert væri til í því. Rétt fyrir upphaf tímabilsinstjáir þjálfari liðsins, Páll Kristjánsson, honum að Magnús sé væntanlega á leiðinni.

Brotnaði niður á fundinum

„Ég sagði við Pál að ég myndi bilast ef hann kæmi. Ég sagði honum einnig að ég væri farinn ef þannig færi. Svo heyri ég ekki frá neinum í viku. Ég er svo kallaður á fund rétt fyrir fyrsta leik og á þessum fundi er mér tilkynnt að það sé klárt að Maggi komi. Ég ætlaði að segja svo margt á þessum fundi en ég kom því ekki frá mér því ég byrjaði að gráta og hreinlega skalf. Ég missti bara vitið og brotnaði niður. Ég stóð svo upp, þurrkaði tárin og sagði þeim að ég myndi rifta samningnum. Svo rauk ég út,“ segir Valdemar en hann er ekki sáttur við vinnubrögð knattspyrnudeildar.

„Það var engin miskunn hjá þeim. Þau skildu ekki af hverju ég væri fúll og af hverju ég væri að kvarta yfir vinnubrögðunum. Kannski er ekki eðlilegt að tala við mig í viku en hvar er siðferðið á bak við þetta? Hvað með mig? Er í lagi að láta mig bara bíða í viku. Þetta er ein óþægilegasta vika sem ég hef upplifað.“

Ég er ekki heimskur

KV vildi halda Valda og sagði að þeir tveir gætu orðið frábært framherjapar.

„Þau sögðu að hann yrði ekki endilega fyrsti striker. Ég er ekki svo heimskur. Hann er frábær, betri og með meiri reynslu þó svo ég sé alveg ágætur líka. Ég er á þeim tímapunkti að ég þarf að spila í 80-90 mínútur.“

Valdemar segir að KV hafi tjáð honum að ástæðan fyrir því að þau hafi viljað fá Magnús sé sú að Valdemar hafi verið að horfa til útlanda.

„Þeir eru að nota það og fela sig á bak við að ég sé að fara út. Segjast ekki vilja standa uppi framherjalaus næsta tímabil. Það er mjög ósanngjarnt að mínu mati. Það er verið að refsa mér fyrir að vilja fara út. Ég ætlaði mér að vera áfram og var búin að hafna félögum hér heima (t.d. KFS) og þremur í Noregi,“ segir Valdemar og bætir við að hann sé mjög þakklátur fyrir þann stuðning sem hann hefur fengið frá félögum sínum í KV liðinu.

„Þeir eru heldur ekki sáttir við þessi vinnubrögð og það segir margt. Auðvitað vilja Þeir fá Magga en þeir vilja heldur ekki missa mig og sögðu mér það. Ég er mjög mikilvægur félagslega sem skiptir líka máli. Ég er trúðurinn í klefanum sem heldur uppi stemningu.“

Tímabilið byrjaði mjög vel hjá KV en liðinu fór að ganga illa í síðustu leikjunum. KV tapaði mikilvægum leik við Völsung og urðu að játa sig sigraða í baráttunni um sæti í 1. deild..

„Miðað við hvernig ég stóð mig í þeim leikjum sem ég spilaði finnst mér ég ekki eiga það skilið að liðið sé að ná í Magga þó svo hann sé auðvitað frábær framherji. Ég get líka staðið mig vel og er þar fyrir utan talsvert ódýrari en hann.“

Komin með ógeð

Valdemar er orðin 26 ára gamall og hefur farið víða á stuttum ferli. Hann hefur líka verið í KR. Þessi uppákoma hefur ekki farið vel í hann og hann er búin að fá nóg af fótbolta í bili.

„Margir væru búnir að gefast upp og hætta. Ég á mjög auðvelt með að aðlagast nýjum hópum en núna sé ég mig ekki skipta um lið og spila fótbolta hér heima. Ég er kominn með ógeð og hef aldrei verið svona áður. Ég er að spá í taka mér frí og verða jafnvel flugþjónn,“ segir Valdemar og viðurkennir að eðlilega sé hann sár yfir þessari atburðarás.

„Þetta er smá höfnun og þau voru að tala um að vinna titla. Við sáum í vetur að liðið getur vel komist upp um deild með mér. Við vorum ansi nálægt því.“

Eins og áður segir er Valdemar ekki spenntur fyrir því að spila áfram hér heima þó svo hann hafi ætlað sér það.

„Ég er með eitt lið í Noregi sem ég fer kannski að skoða fyrst staðan er orðin svona. Mig langar ekki að spila með liði á Íslandi.“

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>