Kolefnisjafnar sig

„Það væri nær að kolefnisjafna á þér rassgatið!“ sagði Valdemar Ásbjörnsson, leikmaður KV, þegar við rákumst á hann í Ísgerðinni á ellefta tímanum í kvöld. Valdemar var þar með konunni (eða Conan eins og hann kallar hana) að fá sér einn tvöfaldan ís með dýfu. Það var greinilega hvasst á Gólsenstöðum og stuttur þráðurinn, en fréttamaður spurði pent út í myndir sem birst hafa af Valdemar á netinu gróðursetjandi tré, en talað er um að hann sé þar að kolefnisjafna sig. Ku þetta vera áramótaheit.

Eftir fyrsta sleikinn af ísnum bráðnaði þó af Valda kalda mesta bræðin og hann settist niður, krosslagði fætur, hallaði sér aftur í stólnum og sagði allt af létta.

„Sko maður getur ekki mengað og mengað eins og enginn sé morgundagurinn. Kannski eignumst við einhvern tíman börn [tekur í hönd konunnar] og maður verður sko að hugsa út í þann heim sem við skiljum eftir handa þeim, fjandakornið.“ segir Valdemar ákveðinn og lemur í borðið til að leggja enn frekar áherslu á orð sín.

En hvað þarf Valde að gróðursetja mörg tré til að kolefnisjafna sig? „Það fer eftir því hvort við förum norður“ segir Valdi einbeittur og bætir við „… en ég reikna með að ég þurfi að grafa svona 10 pund af rabarbara á Valhúsahæð til að koma þessu í gang og svo finnst mér tilfinnanlega vanta aspir við Flyðrugranda.“

En þá stóð Valdemar upp, hrifsaði frúna með og arkaði út hrópandi „Jæja, má ekki vera að þessu, þetta setur ekki í sig sjálft!… nei, þetta setur sig ekki í jörðina sjálf! Æ þú veist hvað ég meina. Sleiter!“