Tap fyrir norðan – næsti leikur á fimmtudag

Ekki minnkar spennan á toppi 2. deildar en eftir tap á Húsavík er KV í 2. sæti deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir.

Úrhellisrigning var rétt fyrir leik og með köflum á ágætum vellinum á Húsavík og þó menn ættu nokkuð erfitt með að fóta sig á vellinum var fyrri hálfleikur þokkalegur þó lítið væri um færi. Strax í upphafi leiks átti Gunnar Kristjánsson að fá vítaspyrnu þegar hann bjó sig undir að fylgja eftir skoti rétt við vítapunktinn en var keyrður niður. Augljóst brot sem dómarinn hefur væntanlega ekki séð.

Síðari hálfleikur var talsvert slakari hjá Vesturbæingum og gekk sóknarleikurinn illa. Atli Jónasson varði tvisvar mjög vel frá heimamönnum og Guðmundur Pétur Sigurðsson náði að bjarga vel þegar sóknarmaður Völsungs var við það að ná skoti einn á móti Atla.

Skömmu fyrir lok venjulegs leiktíma komust heimamenn yfir með góðu marki eftir að Jökull Elísabetarson hafði orðið fyrir föstu olnbogaskoti í andlitið sem ekki var dæmt á. Eftir markið efldust Vesturbæingar, gerðu allt hvað þeir gátu til að jafna og áttu að fá tækifæri til þess þegar varnarmaður handlék boltann inni í vítateig en enn og aftur var ekki flautað. Heimamenn gerðu út um leikinn nokkrum andartökum fyrir leiksloks og eru nú á toppi deildarinnar.

Næsti leikur KV er gegn Aftureldingu á fimmtudag kl. 18:30.