Sigur á Hamri í spennandi leik

KV og Hamar mættust á aðalvelli KR í gærkvöldi, en leikurinn var afar mikilvægur fyrir bæði lið. KV gat komist í toppsætið með sigri og Hamar var undir pressu í botnbaráttunni frá Fjarðabyggð sem lagði Njarðvík fyrr um daginn.

Nokkuð jafnræði var með liðunum þar sem miðjumenn liðanna voru mest áberandi, en þeir Jökull Elísabetarson (KV) og Abdoulaye Ndiaye (Hamri) áttu báðir frábæran leik. Varnir beggja liða héldu nokkuð vel og fengu liðin í mesta lagi hálffæri framan að.

Einar Bjarni Ómarsson kom Vesturbæingum yfir eftir ríflega klukkustundarleik með góðu skoti í fyrstu snertingu úr teignum. Aron Steinþórsson var fljótur að bæta við öðru marki en langt skot hans með vinstri fæti hafði viðkomu í varnarmanni og slöngvaðist yfir Björn Metúsalem í marki Hamars.

Minnstu munaði að Einar Már Þórisson kæmi KV í 3-0 eftir glæsilega tilburði upp vinstri kantinn. Hann tók skrefið til hægri og lét vaða af vítateigshorninu en boltinn hafnaði efst í innanverðri fjærstönginni.

Hamarsmenn minnkuðu metin þegar lítið var eftir, en þá fylgdi Sene Abdalha eftir frábærri markvörslu Atla Jónassonar í marki KV. Ekki voru þó skoruð fleiri mörk og fögnuðu Vesturbæingar þremur afar dýrmætum stigum í toppbaráttunni.

Næsti leikur KV verður á Húsavík næstkomandi laugardag kl. 14:00.