Grátlegt tap í erfiðri ferð til Ólafsfjarðar

Annað hvort þarf að skrifa bók eða örstutt greinarkorn um 3-1 tap KV á Ólafsfirði í gær. Við látum það síðarnefnda duga að þessu sinni.

Eftir rúmlega 8 klukkustundir í rútu sem fengin var að láni frá Bangladesh mættu Vesturbæingar hálftíma fyrir leik í gríðarlega mikilvægan leikinn gegn KF. Ekki fékkst leiknum frestað um einhverjar mínútur svo menn gætu gert sig klára, en eftir svo langa setu og reglulegar áhyggjur af eigin lífi í rútuferðinni frá helvíti stóðu strákarnir sig afar vel með því að jafna metin og ná því sem næst að knýja út jafntefli. En á lokamínútunum skoruðu heimamenn mörkin sem skildu á milli liðanna og sendu KV menn stigalausa heim.

Leikmenn fá áfallahjálp á æfingu í dag sem hefst kl. 18:00 og unnið verður í því að gera menn andlega klára fyrir næsta leik, sem er heimaleikur gegn Hamri á sunnudaginn.