Jafntefli við Njarðvík

KV og Njarðvík gerðu jafntefli á KV Park á föstudagskvöld. Aðstæður gerðu liðunum erfitt fyrir að spila almennilegan fótbolta og var leikurinn því lítið fyrir augað. Vesturbæingar hófu leikinn afar vel en eftir um 20 mínútur skoruðu Suðurnesjamenn eftir mjög ódýra aukaspyrnu, úr sínu eina skoti í hálfleiknum. Gestirnir vörðust vel eftir markið, með alla sína leikmenn í vörn og þó nokkrum sinnum stæði það tæpt náðu þeir að halda markinu hreinu þar til Gunnar Kristjánsson skoraði í uppbótartíma.

Með stiginu heldur KV toppsæti deildarinnar en næsti leikur er á þriðjudaginn kemur á Ólafsfirði.

Þeir Jón Kári Eldon og Halldór Bogason léku sinn síðasta leik fyrir KV í sumar, en þeir halda nú vestur um haf í háskóla. Halldór fer til Alabama og Kári til San Francisco. Gunnar Kristjánsson er auk þess floginn til Þrándheims í mastersnám í jarðfræði en mun fljúga heim í helming eftirstandandi leikja liðsins.