Umræða um hagvöxt á villigötum

Við fengum þessa áhugaverðu grein senda af kögunarhóli Davíðs Birgissonar, framherja KV. Davíð er áhugamaður um efnahagsmál og beittur penni.

Davíð skrifar pistla um efnahagsmál

Eftir umtalsverðan samdrátt í kjölfar efnahagshrunsins 2008 mældist hagvöxtur hér á landi jákvæður um 3,1% á síðasta ári. Spár Seðlabanka og einkaaðila eru nokkur samhljóða, en þar er almennt gert ráð fyrir heilbrigðum hagvexti, eða á bilinu 3-3,5% fram til ársins 2014.

Eins og gefur að skilja eru hagvaxtartölur og -spár áberandi í þjóðfélagsumræðunni og hafa fjölmiðlar sýnt henni nokkurn áhuga. Þetta tækifæri hafa stjórnmálamenn gripið á lofti og tjáð sig ansi digurbarkalega, ýmist til að upphefja eða gera lítið úr vextinum. Því miður hafa fjölmiðlar sýnt því mjög lítinn sem engan áhuga að fara vandlega og með faglegum hætti í hagvaxtartölur svo færi gefist á málefnalegri og ítarlegri umræðu um þá þætti sem að baki hagvextinum standa. Þannig hafa stjórnarflokkarnir fengið að komast upp með að benda á prósentutölu hagvaxtar og bera hana saman við erlendan hagvöxt, sem sýna á hversu vel hefur gengið. En því miður duga slíkar skýringar skammt. Lítum nánar á málið.

Hyldýpið
Vissulega mælist hagvöxtur hér á landi mjög heilbrigður sé hann borinn saman við löndin í kringum okkur. En prósentutala hagvaxtar segir aðeins hálfa söguna. Hversu góður hagvöxtur er þarf að taka mið af þeim samdrætti sem áður var. Kreppan hefur skollið á með krafti mun síðar í öðrum löndum Evrópu , en við, með tilheyrandi falli krónu og verðbólgubáli, höfum þegar gengið í gegnum mestu hremmingarnar. Neikvæður hagvöxtur var á þeim tíma mun meiri hér á Íslandi er erlendis og því þarf hagvöxtur að vera mun meiri til að vinna okkur upp úr því hyldýpi sem við erum í nú.

Gjaldeyrishöftin
Önnur ástæða fyrir takmarkaðri ánægju með hagvöxtinn er sú staðreynd að við búum við gjaldeyrishöft. Vissulega hafa höftin reynst heppilegt skjól fyrir því báli sem nú fer um Evrópu en gleymum ekki hvers vegna höftin voru sett á í upphafi. Hlutverk gjaldeyrishaftanna er að halda uppi gervigengi á íslensku krónunni. Íslenska hagkerfið á eitt högg til viðbótar inni, en það er þegar höftunum verður aflétt. Má þá búast við lækkun hagvaxtar, eingöngu vegna þeirrar aðgerðar, en þau lönd sem við berum okkar tölur saman eru í allt annarri stöðu hvað varðar sína gjaldmiðla.

Einkaneysla
Samsetning hagvaxtar skiptir máli. Eins og tíðrætt hefur verið af hálfu stjórnarandstöðu þarf ætíð að setja fyrirvara við hagvöxt sem að áberandi miklu leiti er drifinn áfram af einkaneyslu. Ekki er þá um að ræða raunverulega verðmætasköpun, en slíkt er nauðsynlegt ef landið ætlar að geta borið þær þungu birgðar sem neikvæð staða ríkissjóðs og Seðlabanka eru og verða væntanlega til framtíðar. Tímabundin heimild til úttektar séreignarsparnaðar hefur einnig villandi áhrif, en hún eykur neyslu og hagvöxt í dag á kostnað hins sama síðar meir. Með heimildinni tökum við lán frá hagvexti framtíðar og færum hann einungis til.

Vissulega er jákvætt að hagvöxtur sé jákvæður og verði það næstu árin. Förum þó ekki fram úr okkur í fagnaðarlátunum, það eru enn blikur á lofti og mikilvægt er að sá hagvöxtur sem hér verður verði heilbrigður og byggður á raunverulegri verðmætasköpun.

Hagvöxtur 1995 – 2011
Mynd: Hagstofa Íslands