Hin besta skemmtun en ósigur fyrir handboltann í landinu

Vesturbæingar voru óheppnir að detta út í 32 liða úrslitum SS bikarkeppninnar gegn 15 földum Íslandsmeisturum FH í kvöld. Þarmeð er bikarævintýrið á enda, en við getum þó borið höfuðið hátt því eflaust þarf að spúla Krikann vandlega vegna líkamsvessa KV manna sem flæddu um gólf í öllum átökunum.

Menn voru vel stemmdir í leiknum og þó nokkra fastagesti hafi vantað í stúkuna var fín mæting og nokkur hávaði. Við náðum að hanga í heimamönnum fyrstu mínúturnar og greinilegt var að menn voru ekki mættir út í úthverfin til að tapa. Hins vegar tóku FH-ingar þetta á úthaldinu og sigldu smám saman fram úr.

Allt í allt var um fyrirtaksskemmtun að ræða fyrir alla hlutaðeigandi og það er á kristaltæru að nýtt handboltastórveldi er að rísa í vestri. Við þökkum öllum þeim dyggu stuðningsmönnum sem lögðu land undir fót til að styðja strákana og þökkum sömuleiðis FH-ingum fyrir fyrirmyndar umgjörð og góðan leik.

Fleiri myndir af leiknum eru væntanlegar bráðlega.